Friday, January 28, 2011

Hver er besti leikstjórnandi NBA deildarinnar í dag?

Það skal tekið fram áður en fólk les greinina að undirritaður hefur stutt Hornets liðið frá árinu 1993 og er forfallinn aðdáandi Chris Paul.

Sjaldan eða aldrei hefur NBA-deildin verið jafn vel mönnuð af leikstjórnendum og í dag. Baráttan um titilinn sem besti leikstjórnandi deildarinnar er gríðarlega hörð um þessar mundir og eru skoðannir manna mjög misjafnar hvað það varðar. Oftast eru nefndir til sögunnar 6 leikmenn sem bera tilkall til titilsins. Þetta eru þeir Chris Paul, Deron Williams, Derrick Rose, Rajon Rondo, Russell Westbrook og Steve Nash hér taldir upp í stafrófsröð.
Hér er mín uppröðun á 6 bestu leikstjórnendum NBA deildarinnar í dag:


1. Chris Paul
Að mínu mati er ekki nokkur vafi að Chris Paul sé besti leikstjórnandi NBA deildarinnar í dag og líklega sá besti sem spilað hefur í deildinni allt frá því að Magic Johnson og Isiah Thomas voru og hétu. Það má vel vera að Chris Paul sé að skila slakari tölum en hann hefur verið að gera undanfarin ár en það breytir samt ekki þeirri staðreynd að hann er að mínu mati að skila bestu tölfræðinni af öllm leikstjórnendum í dag. Af fyrri 6 upptöldum er hann þriðji í stoðsendingum, með næstbesta skotnýtinginu, næstbestu vítanýtinguna, yfirburðar fæsta tapaða bolta, með hæsta hlutfall stoðsendinga á hvern tapaðan bolta og flesta stolna bolta. Ef við skoðum framlags jöfnuna (e. Efficiency rating) er hann efstur allra leikstjórnenda í deildinni.

Til að koma í veg fyrir allan misskilning er ég alfarið á móti því að meta leikmenn eingöngu út frá tölfræði. Ég tel hins vegar nauðsynlegt að benda á þessar staðreyndir því það er algengt að menn reyni að rökstyðja það að aðrir leikstjórnendur hafi tekið frammúr Chris Paul vegna þess að hinir séu að skila betri tölfræði.

Í fyrra lenti Chris Paul í erfiðum liðþófameiðslum sem útskýrir lakari tölur hans. Í ár hefur hann þurft að spila með hnéhlíf á stærð við Earl Boykins (© Bill Simmons) og það sjá það allir að hann er ekki jafnkvikur á löppunum og hann var. Það sýnir því hversu ótrúlegur leikskilningur hans er að hann skuli leiða deildina í stolnum boltum þrátt fyrir að hafa ekki sömu snerpu og t.d. Derrick Rose, Russell Westbrook og Rajon Rondo.

Þegar við skoðum hver skiptir mestu máli fyrir lið sitt og hver er mesti leiðtoginn af fyrrgreindum mönnum er það ekki nokkur spurning í mínum huga að Chris Paul stendur þar fremstur. Ég tel að hægt væri að setja Chris Paul í stöður allra þeirra fyrrgreindu án þess að það kæmi niður á árangri liða sem þeir fyrrgreindu spila fyrir og líklegast yrðu þau betri í öllum tilvikum. Að sama skapi er ég ekki að sjá fyrir mér neinn að hinum fylla í skófarið hans Chris Paul hjá New Orleans.

Ég spái því að ef Chris Paul helst heill út tímabilið (út júnímánuð) nær hann vonandi að styrkja veika hnéð enn frekar og komast nær þeim stalli sem hann var á íþróttamannslega fyrir meiðslin.


2. Deron Williams
Deron Williams er eini leikstjórnandinn sem hefur fengið mig til að efast um að Chris Paul sé sá besti í dag. Stórkostlegur leikmaður og að mínu mati væri skarðið sem hann myndi skilja eftir í Utah liðinu það erfiðasta fyrir Chris Paul að fylla. Hann er leiðtoginn í Utah liðinu sem er þekkt fyrir þetta árið að koma til baka eftir að hafa lent undir með miklum mun. Honum hefur tekist að halda Utah liðinu ár eftir ár sem nokkuð öruggu playoff liði í Vestrinu þrátt fyrir misjafnan mannskap oft á tíðum.


3. Derrick Rose
Sá leikstjórnandi sem hefur bætt sig mest á síðastliðnum 2 árum. Ótrúlegur íþróttamaður og toppkarakter sem hefur metnað í að verða sá besti. Sýndi það með því að mótmæla því harkalega að fá Lebron James til liðs við Chicago í sumar að hann hefur engan áhuga á að verða næstbesti leikmaðurinn í liðinu. Rose er bara 22 ára og hefur því allan séns á að verða besti leikstjórnandi deildarinnar haldi hann rétt á spöðunum


4. Russell Westbrook
Líkt og Rose hefur Westbrook bætt sig gríðarlega á síðustu 2 árum. Hefur sýnt fáránlega íþróttamannshæfileika og getur verið ótrúlega skemmtilegt að fylgjast með honum spila. Hann hefur hins vegar stóran veikleika þar sem hann er ekki nægilega stöðugur skotmaður og er nánst engin ógn fyrir utan þriggjastiga línuna. Hann gerir hins vegar það rétta í stöðunni með því að keyra meira að körfunni í staðinn fyrir að berja hausnum í steininn með því að taka endalaus þriggjastigaskot. Það væri fróðlegt að sjá hann í liði þar sem hann er stærsta stjarnan því hann er augljóslega númer 2 á eftir Kevin Durant í sínu liði.


5. Rajon Rondo
Rondo leiðir deildina í stoðsendingum og er sá eini af 6 bestu leikstjórnendunum sem á meistarahring og hefur spilað í lokaúrslitum. Er þeim kosti gæddur að spila betur þegar meira er undir en hefur stóran galla á sínum leik þegar kemur að skotinu. Hversu gott er það samt að geta ekki sett manninn inná á lokasekúndum leiksins þegar hitt liðið þarf að brjóta? Í ár er hann að skila rúmlega 47% vítanýtingu. Eitthvað sem Shaq myndi skammast sín fyrir. Hann er líka greinilega mjög heltekinn að því að verða stoðsendingakóngurinn í ár. Getur varla talist kostur þegar menn sýna svona augljóslega hvað þeim er annt um tölfræðititla...



6. Steve Nash
Lifandi goðsögn, hetja, snillingur, skemmtikraftur og varla hægt að finna svartan blett í fari hans. Verður 37 ára gamall í næsta mánuði og er að spila tölfræðilega jafn vel og hann hefur gert best á sínum ferli. Gallinn er bara sá að hann skuli vera með vonlaust lið í kringum sig og algjör synd ef Phoenix Suns sjá ekki sóma sinn í að skipta honum í betra lið. Við verðum bara að vona það besta því hann á það skilið. Ekki mikill varnarmaður en er sá allra besti í bransanum þegar kemur að því að keyra upp run n’ gun sóknarleik.