Sunday, April 28, 2013

Oddaleikur Grindavíkur og Stjörnunnar í Röstinni í kvöld

Lyklar að sigri Grindvíkinga í oddaleiknum:

  • Ráðast á teiginn eða keyra á körfuna. Stjarnan hefur átt í vandræðum með að stöðva árásir Grindavíkur á körfuna.
  • Keyra í hraðaupphlaupin.
  • Hægja á leiknum og nýta tímann í sókninni. Láta boltann ganga og finna opna skotið.
  • Reyna að hægja á Jarrid Frye. Spila grimma einn-á-einn vörn á hann.
  • Fá meira framlag af bekknum. Bekkurinn hefur aðeins skilað um 7-8 stigum að meðaltali í leik í þessari seríu.
  • Siggi Þorsteins þarf að passa villurnar snemma í leiknum. Nærvera hans í teignum er gríðarlega mikilvæg fyrir Grindavík.
  • Varnarfráköst. Bæði lið skjóta mikið utan að velli og þá sérstaklega fyrir utan þriggja stiga línuna. Það þarf því að passa sóknarfráköstin þar sem boltinn skoppar oft langt úr teignum.
  • Vítanýtingin.

Lyklar að sigri Stjörnunar í oddaleiknum:

  • Hreyfa sig án boltans. Það er auðvelt að dekka hreyfingarlausa sókn.
  • Betri vörn gegn hraðaupphlaupum Grindavíkur.
  • Fara á móti þriggja stiga skotum Grindavíkur.
  • Keyra upp leikhraðann.
  • Passa boltann og lágmarka tapaða bolta.
  • Varnarfráköst. Bæði lið skjóta mikið utan að velli og þá sérstaklega fyrir utan þriggja stiga línuna. Það þarf því að passa sóknarfráköstin þar sem boltinn skoppar oft langt úr teignum.
  • Stjarnan þarf að spila beittari varnarleik. Reyna að loka teignum og taka harðar á móti gegnumbrotum Grindvíkinga.

Tuesday, April 23, 2013

Friday, April 19, 2013

Hinn fullkomni leikur hjá Grindavík?

Það er engu líkara að fyrsti leikur Grindavíkur gegn Stjörnunni í úrslitum Dominos deildarinnar hafi verið nánast fullkomlega leikinn. Þá á ég ekki við 100% nýting á skotum og enginn tapaður bolti - heldur fullkomin framkvæmd á leikskipulagi þjálfara.

Styrkur Grindvíkinga er við hringinn og fyrir utan þriggja stiga línuna og þeir nýttu þá styrkleika til fulls í umræddum leik. Grindvíkingar skoruðu 36 stig yfir utan þriggja stiga línuna, 42 í teignum og 22 í vítum. Eftir liggja einungis 8 stig á milli þriggja stiga línunnar og teigsins sem er kallað óskilvirkasta skotið á körfuboltavellinum. Jafnfram taka Grindvíkingar aðeins 8 skot á þessu svæði eins og sést best á skotkorti leiksins.

Sóknarnýting Grindvíkinga í leiknum var frammúrskarandi eða 61,4% (sókna sem skorað var 1 stig eða fleiri). Þeir eru með ORgt 149,4 í leiknum sem jafngildir 1,5 skoruðum per sókn. Þessi gildi náðu hámarki í fjórða leikhluta þar sem Stjarnan kom engum vörnum við. Nýtingin var 81% og ORgt 213,3 eða 2,13 stig skoruð per sókn. Skemmst frá því að segja að Grindavík hafi unnið fjórðunginn 34-12.

Það verður erfitt fyrir Grindavík að fylgja þessu eftir sérstaklega þar sem framlag bekkjarins í leiknum var aðeins 5 stig. Fleiri þurfa að koma með framlag ef Grindavík ætlar sér titilinn.

Wednesday, April 17, 2013

Úrvalsdeild karla 1988-89 - Tölfræðigreining

Í gegnum tíðina berum við alltaf saman gamla tímann og þann nýja. Menn rífast stanslaust um hvort Magic eða Jordan hafi getað dekkað LeBron eða Kobe. Eða jafnvel hvort meistaralið Miami Heat gæti staðið í Chicago Bulls liðinu árið 1996.

Slíkur samanburður er alltaf erfiður því þá er verið að tala um ólíka tíma, ólíkar kynslóðir leikmanna og aðrar áherslur í leik liða.

Lítið hefur hins vegar farið fyrir slíkum samanburði á gömlum körfuboltaliðum á Íslandi gegn þeim sem nú spila í Dominos deildinni.  Tilgangurinn með þessum pistli er að gera heiðarlega tilraun til þess og byrja á að bera saman Flugleiðadeildina 1989 og Dominos deildina í dag. Skoðum hvort það sé munur á hraða leiksins, skotvali, stigadreifingu, skotnýtingu og einnig skilvirkni sókna. Síðar meir munum við fá inn fleiri tímabil.

Áður en ég hóf þessa könnun var ég nokkurn veginn búinn að ákveða að leikhraði á níunda áratugnum hafi verið mun hægari en í dag. Raunin er hins vegar önnur. Meðalleikhraði (Pace) deildarinnar 1989 er aðeins 2 sóknum á eftir boltanum í dag. Sóknarnýtingin (Floor%) er sú sama og almenn skotnýting örlítið lakari í dag. TS% og eFG% er hins vegar umtalsvert hærri og það skýrist á miklu magni þriggja stiga skota sem boltinn í dag hefur umfram '89. Liðin í dag taka að meðaltali um 12 þriggja stiga skotum meira en '89 og nýtingin nokkurn veginn sú sama.

Þessi áherslumunur sést best í dreifingu stigaskors og á skotvali liðanna í deildunum tveimur, þar sem um þriðjungur allra skota í dag eru þriggja stiga skot en þetta hlutfall var aðeins 16,9% '89.

Samkvæmt Four-Factors greiningu eru það Njarðvíkingar sem tróna á toppinum með Keflavík rétt á eftir sér. Munurinn á milli bestu og lökustu liðanna er í sjálfu sé ekki mikið meiri en hann er í dag hvað þessa tölfræði varðar, að undanskildu liði ÍS sem er algerlega í sérflokki í neðsta sæti í 5 af 8 þáttum. Íþróttafélag stúdenta féll þetta árið og fór aldrei upp aftur.

Keflavík skarar fram úr í sókn með 51,9% nýtingu á sóknarleik sínum en er í einhverjum erfiðleikum með varnarleikinn. Njarðvíkingar hins vegar eru framúrskarandi í vörn, heldur sóknarnýtingu andstæðingar sinni í 41,7% og meðal þriggja bestu sóknarliða deildarinnar.



Hvað varðar leikmenn deildarinnar birtist hér að neðan listi yfir 20 efstu leikmenn deildarinnar út frá PER (Player Efficiency Rating). Þar vekur strax athygli að nýliðinn, 17 ára unglingurinn Jón Arnar Ingvarsson er þar efstur á lista með 30,9 í PER á sínu fyrsta ári í meistaraflokki Hauka (m.v. tölfræðisafn KKÍ). Ótrúlega athafnasamur inni á vellinum þrátt fyrir að spila aðeins 18 mínútur í leik. Það kann að vekja furðu lesenda að 17 ára nýliði sem spilar aðeins 18 mínútur í leik komist á þennan lista, hvað þá að leiða hann. Þessi mælikvarði hins vegar mælir skilvirkni leikmanna og nái þeir tilskildum lágmarksmínútufjölda komast þeir í mengið sem þetta er reiknað út frá.

PER mælir eins og áður segir skilvirkni og nýti menn þær mínútur sem þeir fá til góðra verka, geta þeir mælst hátt í þessu gildi.  T.d. ef tölfræði Jóns Arnars er uppreiknuð miðað við 30 mínútur í leik er hann með 22,1 stig, 5,5 stoðsendingar og 2 stolna bolta.  Jón Arnar er einnig með mjög hátt Usg% sem er fátítt fyrir unglinga á fyrsta ári.

Teitur Örlygsson er ekki langt undan með 29,5 en það er óhætt að segja að við þessa athugun hafi verið færðar undir það stoðir hversu fáránlega góður varnarmaður Teitur var á þessum tíma. Sem dæmi má nefna að Teitur var með hvorki meira né minna en 4,3 stolna bolta í leik.

Það þekkj allir Guðjón Skúlason og hvers hann er megnugur með boltann. Ótrúleg skotnýting hans á þessu tímabili vegur þungt við þessar mælingar en hann var með 57,6% nýtingu innan þriggja stiga línunnar og 38,4% utan hennar.

Restin af listanum er smekkfull af gömlum goðsögnum í íslenskum körfubolta og er efni í heila bók að fjalla um þá alla.  Einn ber þá helst að nefna og það er Hauka-maðurinn Pálmar Sigurðsson sem er faðir Arons Pálmasonar, landsliðsmanns í handbolta. Sá var heldur betur á skotskónum á þessu leiktímabili, tók 228 þriggja stiga skot (flest allra í deildinni) og hitti úr 93 þeirra (einnig flest allra í deildinni), sem gera 40,8%! Þess ber þó að geta að á þessum árum voru aðeins 3-4 leikmenn sem sáu um að skjóta 80-90% af þriggja stiga skotum liðsins. Aðrir höfðu bara önnur hlutverk í liðinu. Nú er þessu háttað á allt annan veg og fleiri geta sett hann niður fyrir utan.

Einnig verður að benda á sérstöðu Jóns Kr. Gíslasonar í leikstjórnandastöðunni fyrir Keflavík. Þar er á ferðinni hreinræktaður "point guard" ef einhvern tímann slíkur var til á Íslandi. Leiddi deildina í stoðsendingum með 167 yfir veturinn eða 6,4 að meðaltali í leik. Eflaust mætti nánast tvöfalda þessa tölu til að hún verðir nær raunveruleikanum því þeir sem skráðu tölfræðina á þessum tíma voru sjaldnast með það á hreinu hvað stoðsending fæli í sér og var hún ekki skráð nema boltinn væri sendur nánast beint í körfuna. Hlutfall stoðsendinga á móti töpuðum boltum er einnig gríðarlega hátt hjá Jóni eða 2,5, en þetta er oft góður mælikvarði á gæði leikstjórnenda.

 

Saturday, April 13, 2013

Nate Robinson er brandarakall

Grindavík og Stjarnan í úrslit


Nú er orðið ljóst hvaða lið mætast í úrslitum Dominos deildarinnar. Grindavík sigraði KR 3-1 eins og spáð hafði verið hér á Ruslinu en Stjarnan gerði einum leik betur en spáin hafði getið til um eða einnig 3-1 sigur á Snæfelli.

Grindavík var einu ef ekki fleiri númerum of stórir fyrir KR og þegar þeim varð það ljóst að þeir eiga það til að tapa leikjum þegar þeir ráðast ekki að körfunni og sækja stig í teiginn. Óþarfi að fjölyrða meira um það hér.

Í hinni viðureigninni voru það tvö af skilvirkustu sóknarliðum deildarinnar sem voru að eigast við. Snæfell nýtir 51,5% af sóknum sínum til að skora a.m.k. 1 stig og Stjarnan nýtir 50,7%. Grindavík er einnig í þessum flokki í öðru sæti á eftir Snæfelli með 50,9% nýtingu.

Þessi rimma hófst með látum. Eins stigs sigur Snæfells í Hólminum í gríðarlega skilvirkum sóknarleik þar sem bæði lið voru yfir 51% í framangreindu nýtingarhlutfalli. Það var svo í leik 2 sem Jay Threatt fer úr tálið og fer meiddur út af í lok leiks. Það sem gerist í öðrum leiknum og næstu leikjum þar á eftir er að sóknarnýtingarhlutfallið hríðfellur hjá Snæfelli í nágrenni við 45%. Hvort það er varnarleikur Stjörnunnar að setja þumalskrúfuna á Snæfell eða sú staðreynd að Jay Threatt lék ekki með (eða lék með á öðrum fæti) skal ósagt hér. Threatt lék í 32 mínútur í leik 2 þar sem sóknarnýtingin var 45,6%, töluvert frá meðaltali Snæfells í vetur. 

Meðaltal sóknargilda (ORgt)  liðanna í þessari seríu var 110,6 hjá Snæfelli og 120,2 hjá Stjörnunni sem gefur ekki beinlínis til kynna að stífur varnarleikur hafi verið spilaður.

Nýtingarhlutfall Stjörnunnar er hins vegar nokkuð yfir 50% í öllum leikjunum. Skilvirknin í leiknum í kvöld var hins vegar frammúrskarandi með ORgt 124,5 og nýtingarhlutfall 53,7%. Hvort skotval liðsins í leiknum hafi eitthvað haft með það að gera er spurning, en það er engu líkara en Teitur og Snorri hafi fyrirskipað að langir tvistar væru harðbannaðir í þessum leik. Skotkort Stjörnunnar færir sönnur á þetta.

Svo við fáum tvö bestu lið deildarinnar í úrslitin. Grindvíkingar eiga harma að hefna eftir bikarúrslitaleikinn í ár og Stjörnumenn eru banhungraðir í sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil og vilja einnig hefna fyrir undanúrslitin í fyrra.

Eitt er morgunljóst - að þetta verður rándýr úrslitarimma!

Mynd: Tomasz Kolodziejski (Karfan.is)

Wednesday, April 10, 2013

Tuesday, April 9, 2013

Louisville Cardinals eru NCAA meistarar

Louisville Cardinals vinna NCAA meistaratitilinn frammi fyrir 75 þúsund áhorfendum. Lentu snemma 12 stigum undir en Luke Hancock sá til þess að skjóta þá aftur inn í leikinn með regni af þristum rétt fyrir lok fyrri hálfleiks. Louisville náðu svo forystunni í seinni hálfleik og létu hana ekki eftir þrátt fyrir að Michigan væri héldi fast í við þá.

Rick Pitino er fyrsti þjálfarinn í sögu NCAA Div I að vinna titilinn fyrir sitthvorn skólann. Var vel við hæfi að Kevin Ware fengi að klippa niður netið.


Sunday, April 7, 2013

Blake Griffin getur hangið í loftinu




Vandamál Grindavíkur með þriðja leikhluta

Fyrr í dag vakti besti körfuboltavefur Íslands - Karfan.is - athygli á því að Grindvíkingar hafi átt í vandræðum með KR í þriðja leikhluta beggja leikja undanúrslitaviðureignar þessara liða. Grindavík tapaði þriðja leikhluta 24-33 í fyrri leiknum og 24-15 í þeim seinni.

Ruslið fór á stjá til að kanna mögulega ástæðu fyrir þessu. Grindavík er það lið í Dominos deildinni sem er í hvað mestu jafnvægi milli sigur- og tapleikja, og þ.a.l. mjög erfitt að finna hvað olli því að liðið tapaði fjórum leikjum í deild og nú einum í úrslitakeppninni.

Í deildarleikjunum töpuðu Grindvíkingar fyrir Þór Þorlákshöfn, ÍR, Keflavík og Stjörnunni. Í öllum þessum leikjum tapaði Grindavík þriðja leikhluta að undanskildum leiknum gegn Þór þar sem Grindvíkingar töpuðu fyrsta hluta 20-12. Í leiknum gegn ÍR tapaði Grindavík þriðja hluta 29-19, 35-23 gegn Keflavík og 34-18 gegn Stjörnunni.

Leikhraði liðsins er nánast sá sami í sigur- og tapleikjum, fjöldi þriggja stiga skota og karfa er nánast sá sami. Einna helsti munurinn er nýting innan við þriggja stiga línuna. Sem færir okkur að næstu athugun. Skotkort Grindvíkinga í þriðja leikhluta þeirra leikja sem þeir tapa bæði þriðja leikhluta og svo leiknum í kjölfarið gefur einhverja vísbendingu. Sjá kortið hér að neðan.

Grindvíkingar eru mjög færir í að keyra að körfunni og sækja stig þannig. Það fer hins vegar lítið fyrir skotum nálægt körfunni í framangreindum leikjum. Það er einna helst í leiknum gegn Keflavík sem Grindvíkingar ráðast mikið að körfunni en vandamálið í þeim leik var að Keflvíkingar hittu 6/9 í þristum og Grindvíkingar töpuðu 6 boltum í þriðja hluta.

Í þessum leikjum er eins og Grindvíkingar séu ekki mikið að keyra að körfunni strax eftir hálfleik og leita mikið meira að langskotum með misgóðum árangri, auk þess að gleyma sér í vörninni og fá á sig um og yfir 30 stig.


Terrence Ross getur troðið

Síðast þegar Michigan Wolverines fóru í úrslit NCAA keppninnar gerðist þetta

Saturday, April 6, 2013

Teitur Örlygsson: "Í körfubolta ræðst þetta oft á fráköstunum"




Sá þjálfari í Dominos deildinni sem er meira teknískur og metnaðarfyllri en Teitur Örlygsson er vandfundinn, ef hann er til. Hann og Snorri Arnaldsson aðstoðarþjálfari Stjörnunar undirbúa sína leikmenn með slíkum metnaði að annað eins er vandséð í efstu deild - og það er svo sannarlega að bera ávöxt.

Eins og svo oft áður hittir Teitur naglann á höfuðið, og nú með fráköstinn. Það sást í leik KR og Grindavíkur í DHL höllinni á fimmtudaginn þar sem KR gersamlega kjöldró meistarana í frákastabaráttunni. Sóknarfráköst eru einn mikilvægasti þáttur í sóknarleik liða og kemur ekki að óvörum að þau eru einn af fjórum þáttum í Four Factors mati á sóknarleik liða. Að því gefnu skipta varnarfráköst einnig miklu máli þar sem þeim liðum sem tekst að loka á sóknarfráköst andstæðinga sinna ætti að vera greið leið til sigurs í leikjum sínum.

Stjarnan gaf andstæðingum sínum 16 sóknarfráköst að meðaltali í deildarkeppni Dominos í vetur - langhæst allra liða. Meðaltal deildarinnar var 12,2. Í leik 1 gegn Snæfelli tapaði Stjarnan sóknarfrákasta baráttunni 11-0 en tapaði aðeins með einu stigi. Það eitt er að mínu mati næg vísbending um hvað Stjarnan þarf að gera til að vinna þetta einvígi.

Myndband frá Karfan.is

Kris Kross - 10 bestu ökklabrotin í mars

Thursday, April 4, 2013

Þróun í skotvali í úrvalsdeild á Íslandi - 3s vs. 2s


Fáar, ef einhverjar, reglubreytingar í körfubolta hafa haft jafn mótandi áhrif á leikinn og þriggja stiga línan sem var tekin inn í FIBA reglurnar árið 1984. Mörg lið í atvinnumannadeildum hafa sett mikinn fókus á þriggja stiga skotið og er nánast hvert og eitt einasta lið með alla vega 1-2 annálaðar þriggja stiga skyttur.

Það hefur verið mín skynjun undanfarin ár að þróunin sé í þá átt í efstu deild hér á Íslandi að þriggja stiga skotum fari fjölgandi og lið leggi sífellt meiri áherslu á þau í sóknarleik sínum. Því ákvað ég að taka saman þær upplýsingar sem eru á reiðum höndum á vefsíðu KKÍ til að kanna þetta mál.

Tölfræðisafn KKÍ, í þeirri mynd sem það er í dag, nær aftur til tímabilsins 2008-2009 og því kannski ekki nóg til af gögnum til að meta þróunina almennilega.

Ef skoðuð er samsetning á skotvali liða í efstu deild á þessum árum sést ekki mikil breyting á milli ára. Þriggja stiga skotum fækkar hlutfallslega á tveimur síðustu árum sem er harla í takt við það sem nefnt er hér að ofan. Þessa breytingu má að öllum líkindum rekja til færslu þriggja stiga línunnar utar fyrir tímabilið 2011-2012.


Ef könnuð er dreifing á stigaskori í deildinni er sömu sögu að segja þar sem fjöldi stiga af vítalínunni er stöðugur, rétt undir 20% af heildinni.


Þvert á móti er hlutfall tvegga stiga skota af heildinni að hækka umtalsvert síðustu ár og sú þróun leitar upp á við eins og gula línan sýnir. Nokkuð sem mætti einnig rekja til tilfærslu þriggja stiga línunnar fyrir tveimur árum.


Þegar almenn skotnýting er könnuð sjáum við leitni niður á við í þriggja stiga skotum. Nýtingin tekur eðlilega góða dýfu eftir tilfærslu þriggja stiga línunnar. Nokkuð jöfn nýting í tveggja stiga skotum en mjög ánægjulega þróun upp á við er að sjá í nýtingu vítaskota. Vítanýtingin náði sínu hæsta gildi á því tímabili sem kannað var í nýliðinni deildarkeppni eða 72,7%




Af þessum gögnum að dæma er hægt að hrekja fyrrgreinda kenningu að áhersla liða í eftstu deild í körfubolta á Íslandi sé að færast í átt að þriggja stiga skotum. Hins vegar ef könnuð er þróun á fjölda allra skota utan að velli í heild milli ára sést allt önnur saga.


Umtalsverð aukning á skotum utan að velli á þessum árum eða um 1,4% að meðaltali á ári. Þessar tölur haldast í hendur við fyrri athugun á þróun leikhraða í deildinni á sama tíma.

Það er því ekki hægt að fullyrða að körfuboltalið á Íslandi séu að leita í meira mæli í þriggja stiga skotin frekar en önnur skot innan línunnar. Liðin eru hins vegar að skjóta mun meira í heildina litið sem sést einnig í auknum leikhraða í gegnum árin. Áhrifa tilfærslunnar á þriggja stiga línunni gætir víðs vegar í þessari athugun og því mögulega ekki hægt að álykta um efnið vegna þessa. Ruslið mun hins vegar fylgjast með þessari þróun á næstu árum.