Fyrr í dag vakti besti körfuboltavefur Íslands - Karfan.is - athygli á því að Grindvíkingar hafi átt í vandræðum með KR í þriðja leikhluta beggja leikja undanúrslitaviðureignar þessara liða. Grindavík tapaði þriðja leikhluta 24-33 í fyrri leiknum og 24-15 í þeim seinni.
Ruslið fór á stjá til að kanna mögulega ástæðu fyrir þessu. Grindavík er það lið í Dominos deildinni sem er í hvað mestu jafnvægi milli sigur- og tapleikja, og þ.a.l. mjög erfitt að finna hvað olli því að liðið tapaði fjórum leikjum í deild og nú einum í úrslitakeppninni.
Í deildarleikjunum töpuðu Grindvíkingar fyrir Þór Þorlákshöfn, ÍR, Keflavík og Stjörnunni. Í öllum þessum leikjum tapaði Grindavík þriðja leikhluta að undanskildum leiknum gegn Þór þar sem Grindvíkingar töpuðu fyrsta hluta 20-12. Í leiknum gegn ÍR tapaði Grindavík þriðja hluta 29-19, 35-23 gegn Keflavík og 34-18 gegn Stjörnunni.
Leikhraði liðsins er nánast sá sami í sigur- og tapleikjum, fjöldi þriggja stiga skota og karfa er nánast sá sami. Einna helsti munurinn er nýting innan við þriggja stiga línuna. Sem færir okkur að næstu athugun. Skotkort Grindvíkinga í þriðja leikhluta þeirra leikja sem þeir tapa bæði þriðja leikhluta og svo leiknum í kjölfarið gefur einhverja vísbendingu. Sjá kortið hér að neðan.
Grindvíkingar eru mjög færir í að keyra að körfunni og sækja stig þannig. Það fer hins vegar lítið fyrir skotum nálægt körfunni í framangreindum leikjum. Það er einna helst í leiknum gegn Keflavík sem Grindvíkingar ráðast mikið að körfunni en vandamálið í þeim leik var að Keflvíkingar hittu 6/9 í þristum og Grindvíkingar töpuðu 6 boltum í þriðja hluta.
Í þessum leikjum er eins og Grindvíkingar séu ekki mikið að keyra að körfunni strax eftir hálfleik og leita mikið meira að langskotum með misgóðum árangri, auk þess að gleyma sér í vörninni og fá á sig um og yfir 30 stig.