Friday, November 30, 2012

Coach Pops kann þetta allt

Ég ætla ekki að eyða orðum í þá vitleysu sem upp hefur komið í NBA deildinni um að refsa Popovich og Spurs fyrir að hafa ekki mætt með sína bestu leikmenn til leiks í uppáhaldsborgina hans David Stern þessa dagana. Slíkar æfingar eins og boðaðar hafa verið að setja sektir og jafnvel bönn á þjálfarann eru deildinni til háborinnar skammar og enn einn vitnisburðurinn um markaðsvélina sem ræður ríkjum þarna. Menn mega ekki þjálfa liðin sín eftir eigin hentugleik lengur, heldur þarf að beygja sig eftir þeirri eftirspurn sem er fyrir á "markaðnum". Hrein og klár vitleysa og ætti ekki einu sinni að vera til tals.

En hvað um það. Gregg Popovich er snillingur - bæði að þjálfa liðið sitt og einnig að svara bjánalegum spurningum fréttamanna á gólfinu. Hér tekur hann Charles Barkley á kné og rassskellir með orðunum einum.

Takið samt eftir því að í viðtalinu talar Pops um að eina leiðin til að spila gegn feiknasterkri vörn Miami Heat liðsins er að halda tempóinu eins hröðu og hægt er. Sterkar varnir vilja hægan bolta. Kíkið á næstu færslu fyrir neðan í framhaldinu.



Samband hraða leiks og skilvirkni varnar

Það ætti enginn að velkjast í vafa um að ég er varnarsinnaður körfuknattleiksáhugamaður og er þeirrar skoðunar að ekki sé hægt að ná árangri í íþróttinni nema með einhverjum vísi að almennilegum varnarleik. Ég hef hins vegar alltaf haldið að stífum varnarleik fylgi hægur leikhraði. Þess vegna náði þessi grein á HoopData blogginu að fanga athygli mína þar sem könnuð er fylgni milli hraða leiks (e. Pace) og skilvirkni varnarleiks (e. Defensive Rating eða DRgt) hjá NBA liðum undanfarin 6 tímabil. Gögnin þar sýna ótvírætt að því hraðari leik sem NBA lið spila, þeim mun minni skilvirkni í varnarleik liðanna. Hljómar eðlilega, ekki satt?

Mér datt í hug að fá það staðfest hvort þetta "náttúrulögmál" ætti ekki við í úrvalsdeild karla hér á Íslandi. Aðferðin sem um ræðir er leitnigreining (e. Trend Analysis) á fylgni (e. Correlation) milli fyrrnefndra tveggja þátta. Greiningin á HoopData sýndi að með hækkandi "pace", hækkar "DRgt". DRgt er mælikvarði á skilvirkni sóknar sem sýnir skoruð stig andstæðings fyrir hverjar 100 sóknir. Þeim mun hærra DRgt gildi, þeim mun lakari vörn. Gögnin sem ég kannaði ná aftur til 2008-2009 tímabilsins og spanna þar með 5 tímabil að yfirstandandi tímabili meðtöldu.

Niðurstöðurnar komu vægast sagt á óvart. Íslenskur körfubolti virðist vera í algerri andstöðu við þessa speki, því neikvæð fylgni mælist milli þessara tveggja þátta miðað við þau gögn sem könnuð voru.


HoopData könnuðu einnig annan þátt sem getur sýnt fram á skilvirkni varnar en það er eFG% (Efficient Field Goal %) andstæðings. Sú könnun rökstuddi fyrri skoðun þeirra félaga hjá HoopData, svo ég ákvað að gera sambærilega könnun á okkar gögnum. Niðurstaðan var á sömu leið. Þeim mun hraðari bolti þeim mun lakari skotnýting andstæðinga. Línan varð aðeins brattari ef eitthvað er.


Óþarfi hins vegar að láta þar við sitja svo ég reyndi að kanna hvað gæti mögulega valdið þessari "skekkju", ef svo mætti kalla.

Í könnun sem ég setti á Facebook síðu gamla bloggsins vildi ég kanna viðhorf körfuboltaáhugafólks til hraða leiksins sem spilaður er hérna heima. Niðurstaðan úr þeirri könnun var að yfirgnæfandi meirihluti þátttakenda taldi hraðan bolta vera spilaðan hérna á Íslandi, eða 92%. Sú niðurstaða á við rök að styðjast miðað við samanburð við NBA deildina á sama tíma. Meðaltal á pace síðustu 5 ára í NBA er um 77 (leiðrétt fyrir mínútufjölda) á meðan það er 82 hér á Fróni á sama tímabili. Einnig vekur athygli að munur á pace milli efstu og neðstu liða hvers árs er umtalsvert meiri á hér á landi en í NBA. Myndin hér að neðan sýnir þróun á pace á þessum 5 tímabilum sem könnuð voru og meðaltal efstu 6 liðanna og þeirra sem eru í neðri hluta töflunnar í lok hvers árs.


Eins og sjá má er þróunin upp á við og leikur liðanna er að verða sífellt hraðari. Auk þess er bilið á milli neðstu 6 liðanna og þeirra efstu sífell að þrengjast, en þó er enn töluverður munur þar á milli. Í NBA deildinni er nánast enginn munur á milli meðaltals pace efstu 15 liðanna og neðstu 15. Deildin spilar nánast öll á sama hraða.

Af þessu má leiða líkum að því að betri lið úrvalsdeildarinnar hér á Íslandi spili að meðaltali hraðari bolta en hin og nái, eins og gefur að skilja, betri árangri í vörn með sterkari hóp en hin liðin. Það skýrir að einhverju leyti hvers vegna íslenski boltinn er þvert á móti NBA deildinni hvað þessa athugun varðar.

Til gamans má geta að ef skoðuð eru meðaltöl á skilvirkni varna (DRgt) þessara sömu liða á sama tímabili þá má sjá að bilið á milli efri og neðri hlutans í DRgt er sífellt að þrengjast. Það eitt er góð vísbending um að deildin sé sífellt að verða jafnari, í það minnsta hvað varnarleik varðar. Þó verður ekki loku fyrir það skotið að aukið tempo í leik liðanna hafi hér einnig einhver áhrif. Bilið á yfirstandandi tímabili mun eflaust breytast umtalsvert áður en deildin klárast í vor, því þessi staða er tekin eftir einungis fyrstu 5 leiki tímabilsins.


Vert er að hafa í huga:
- Sum tímabilin í gögnunum innihéldu einnig árangur liða í úrslitakeppni en önnur ekki.
- 2012-2013 tímabilið spannar aðeins 5 fyrstu leiki vetrarins.
- Hægt er að fræðast um þau hugtök sem notuð eru hér að ofan í orðalista Basketball-Reference.com.
- Pace er faktor í útreikningi á ORgt/DRgt. Hærra Pace = lægra gildi á ORgt/DRgt ef stigaskor liðanna helst óbreytt.
- Ég set 0,36 faktor á vítaskotin við útreikning á Possessions gildinu, sem hefur áhrif á Pace gildið. Basketball-Reference notar líklegast 0,40 við útreikning á því sama sem kallar á örlítið hærra Pace gildi.

@Emmcee23 á Twitter

Wednesday, November 14, 2012

Áhrif Mike D'Antoni á Lakers

Ætti að vera flestum ljóst að Lakers réðu Mike D'Antoni til þjálfara í síðustu viku. Coach Nick skellti í eitt stk myndband um hvað þetta hefur í för með sér fyrir liðið. Ef þessi greining reynist rétt kæmi mér ekki á óvart ef Lakers myndu skipta Pau Gasol út fyrir breidd. Hann er eiginlega óþarfur í sóknarleik D'Antoni.

Thursday, November 1, 2012

James Harden var á eldi í nótt

37 stig, 12 stoðsendingar, 6 fráköst, 4 stolnir og 2 varin skot.  Eðlilegt?  OKC, u mad?