Saturday, April 13, 2013

Grindavík og Stjarnan í úrslit


Nú er orðið ljóst hvaða lið mætast í úrslitum Dominos deildarinnar. Grindavík sigraði KR 3-1 eins og spáð hafði verið hér á Ruslinu en Stjarnan gerði einum leik betur en spáin hafði getið til um eða einnig 3-1 sigur á Snæfelli.

Grindavík var einu ef ekki fleiri númerum of stórir fyrir KR og þegar þeim varð það ljóst að þeir eiga það til að tapa leikjum þegar þeir ráðast ekki að körfunni og sækja stig í teiginn. Óþarfi að fjölyrða meira um það hér.

Í hinni viðureigninni voru það tvö af skilvirkustu sóknarliðum deildarinnar sem voru að eigast við. Snæfell nýtir 51,5% af sóknum sínum til að skora a.m.k. 1 stig og Stjarnan nýtir 50,7%. Grindavík er einnig í þessum flokki í öðru sæti á eftir Snæfelli með 50,9% nýtingu.

Þessi rimma hófst með látum. Eins stigs sigur Snæfells í Hólminum í gríðarlega skilvirkum sóknarleik þar sem bæði lið voru yfir 51% í framangreindu nýtingarhlutfalli. Það var svo í leik 2 sem Jay Threatt fer úr tálið og fer meiddur út af í lok leiks. Það sem gerist í öðrum leiknum og næstu leikjum þar á eftir er að sóknarnýtingarhlutfallið hríðfellur hjá Snæfelli í nágrenni við 45%. Hvort það er varnarleikur Stjörnunnar að setja þumalskrúfuna á Snæfell eða sú staðreynd að Jay Threatt lék ekki með (eða lék með á öðrum fæti) skal ósagt hér. Threatt lék í 32 mínútur í leik 2 þar sem sóknarnýtingin var 45,6%, töluvert frá meðaltali Snæfells í vetur. 

Meðaltal sóknargilda (ORgt)  liðanna í þessari seríu var 110,6 hjá Snæfelli og 120,2 hjá Stjörnunni sem gefur ekki beinlínis til kynna að stífur varnarleikur hafi verið spilaður.

Nýtingarhlutfall Stjörnunnar er hins vegar nokkuð yfir 50% í öllum leikjunum. Skilvirknin í leiknum í kvöld var hins vegar frammúrskarandi með ORgt 124,5 og nýtingarhlutfall 53,7%. Hvort skotval liðsins í leiknum hafi eitthvað haft með það að gera er spurning, en það er engu líkara en Teitur og Snorri hafi fyrirskipað að langir tvistar væru harðbannaðir í þessum leik. Skotkort Stjörnunnar færir sönnur á þetta.

Svo við fáum tvö bestu lið deildarinnar í úrslitin. Grindvíkingar eiga harma að hefna eftir bikarúrslitaleikinn í ár og Stjörnumenn eru banhungraðir í sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil og vilja einnig hefna fyrir undanúrslitin í fyrra.

Eitt er morgunljóst - að þetta verður rándýr úrslitarimma!

Mynd: Tomasz Kolodziejski (Karfan.is)