Thursday, February 10, 2011

Melo til Lakers?



Carmelo Anthony virðist vera með alla NBA deildina í gíslingu þessa dagana því fátt annað heyrist frá fréttamönnum sem fylgjast með henni annað en til hvaða liða hann geti mögulega farið.  New Jersey Nets, eftir þónokkrar tilraunir, gáfu nýverið skít í kapphlaupið um leikmanninn knáa og virtist þá lítið vera eftir nema New York Knicks og einhver smá smuga á að hann endi hjá Chicago Bulls.

Í síðustu viku bárust fréttir frá Los Angeles að stjórnendur Lakers væru að íhuga breytingar á leikmannalista sínum.  Sífellt háværari raddir heyrast nú af viðræðum milli Nuggets og Lakers um skipti á Carmelo Anthony og Andrew Bynum.  Díll sem gæti launalega vel gengið upp ef Lakers ákveða að loka á The Andrew Bynum Project.  Melo er góður fengur fyrir hvaða lið sem er sóknarlega en Lakers hafa átt í vandræðum í vörninni undanfarið og ekki er ég að sjá Anthony vera sterkan póst þar.  Einnig hefur heyrst af viðræðum milli Lakers og Bobcats um skipti sem myndu senda Artest til Charlotte fyrir annað hvort Stephen Jackson eða Gerald Wallace, en útlit er fyrir að ekkert verði af því þar sem Artest hefur lítinn áhuga á að fara til Charlotte.

En klukkan tifar og styttist hratt í að lokafresturinn til leikmannaskipta renni út þann 24. febrúar nk.  Ekkert lið virðist geta reitt af hendi það sem Nuggets eru að sækjast eftir, nema þá einna helst Knicks.  Þeir geta látið frá sér draft pick sem Nuggets eru á eftir fyrir nýja uppbyggingu á liðinu, en vilja síður láta af hendi Danilo Gallinari eða nýliðan Landry Fields sem eru á óskalista Nuggets.  Bulls hafa lítið annað að bjóða en Luol Deng, einhverja pappakassa og skiptimynt, en taka það ekki í mál að láta frá sér Joakim Noah sem Nuggets hafa farið fram á.

Samkvæmt spekingum vestan hafs virðast allir möguleikar vera jafn líklegir eins og staðan er í dag.  Jafnvel að hann verði einfaldlega um kyrrt þar til tímabilinu lýkur og semji við nýtt lið í sumar.  Ég veit alla vega að ég verð því feginn þegar lausn kemst á þetta mál því þessi sápuópera hefur verið hin versta - líkt og afgreiðsla ónefnds leikmanns á sínum högum sl. sumar.