Sunday, March 27, 2011

Rose og Thibodeau stimpla sig inn


Háværar raddir fjölmiðla hafa verið undanfarið um MVP ár Derrick Rose þetta tímabilið og réttilega því drengurinn hefur átt stórkostlegan vetur, auk þess sem liðið hefur heldur betur stigið upp núna á seinni hluta tímabilsins.  Þrátt fyrir meiðsli Noah og Boozer hélt Bulls liðið góðri siglingu með stjórn Derrick Rose.  Rose átti til að mynda frábæran leik í sigri Bulls á Bucks í nótt með 30 stig og 17 stoðsendingar - hvorki meira né minna.

Menn sjá hins vegar ekki bara MVP verðlaunin fara til Chicago heldur einnig "Coach Of the Year" í hendur Tom Thibodeau.  Snillingarnir á True Hoop blogginu hjá ESPN tóku saman tölfræði þessu til stuðnings.

Rose í MVP:
  • Rose er nú með 24,9 stig; 4,2 fráköst og 7,9 stoðsendingar í leik þetta árið. Aðeins fjórir aðrir leikmenn í sögu deildarinnar geta stært sig af slíkri tölfræði yfir heilt tímabil - þar á meðal LeBron James í fyrra þegar hann vann MVP verðlaunin.
  • Framlag Rose í stigaskori Bulls í vetur er 42,7%, en þá er átt við skoruð stig og stig frá stoðsendingum.  Þetta er hæsta framlagshlutfallið í deildinni í ár.
  • Nýtnihlutfall Rose er 31,2% - það næsthæsta í deildinni (á eftir Kobe Bryant 32,7%). Nýtnihlutfall (Usage Rate%) er áætlað hlutfall sókna sem fara í gegnum ákveðinn leikmann.
  • Í fjórða leikhluta með 5 stiga mun eða minna milli liða, eykst nýtnihlutfallið hans í 39,5% - hæsta í deildinni við þessi skilyrði.
  • Mikið var fjallað um að Derrick Rose væri að æfa skot sitt fyrir utan bogann í sumar.  Á fyrstu tveim árum sínum í deildinni setti hann niður 32 þrista... samanlagt.  Í ár hefur hann sett niður 112 þrista með 33,2% nýtingu og er orðinn löggild ógn fyrir utan.
  • Annar punktur sem kannski rökstyður ekki neitt en er engu að síður merkilegur, en vinni Rose MVP í vor verður hann sá yngsti í sögu deildarinnar, 22 ára.
Thibodeau sem COY:
  • Bulls eru nú með 53-19 árangur, 73,1% vinninghlutfall - það næstbesta í deildinni á eftir SA Spurs.  Aðeins einn þjálfari í sögu deildarinnar hefur skilað betri árangri á sínu fyrsta ári en það var Paul Westphal hjá 92-93 Phoenix Suns með 62-20 eða 75,6%.  Það lið mætti svo Chicago Bulls í úrslitunum í einni skemmtilegustu úrslitarimmu sem ég man eftir.
  • Chicago Bulls er orðið frábært varnarlið eftir komu Thibs og leyfa aðeins 0,99 stig í hverri sókn andstæðings - lægsta í deildinni. 
  • Bulls hafa bætt vinningshlutfall sitt um 23,1 prósentustig - mesta framför í deildinni þetta árið.
Verði þetta hins vegar að staðreynd þá lýgur sagan ekki um árangur liða sem hafa átt bæði MVP og COY innan sinna raða - 45% þeirra fóru alla leið í úrslitin og 36% þeirra skiluðu inn titli.


HookUp:  True Hoop