Wednesday, May 4, 2011

Miami maskínan að hrökkva í gang

Í sumar lofaði LeBron James Miami borg ekki fjórum, ekki fimm, ekki sex, heldur ótal titlum í framtíðinni nú þegar hin heilaga þrenning hafði sameinast með hæfileika sína á South Beach.  Veturinn fór hins vegar brösulega af stað, liðið fór að tapa fyrir ólíklegustu liðum og menn farnir að fjölyrða um að allt hæpið í kringum The Big Three væri uppfullt af lofti.

Í byrjun mars mánaðar virtust leikmenn liðsins vera alveg að þrotum komnir andlega og sögusagnir á ferð um hugsanlegan brottrekstur Erik Spoelstra þjálfara liðsins.  Mikið var gert grín að því að leikmenn hafi farið bókstaflega að grenja í búningsklefanum eftir naumt tap gegn Chicago Bulls í United Center.  Hafði þá liðið tapað fjórum leikjum í röð og 5 af síðustu 6.  Sú taphrina endaði í 5 með sigri á Lakers 10 mars. 

Heat voru 18-3 það sem eftir lifði tímabils og skutu sér fyrir ofan Boston Celtics rétt fyrir lok tímabilsins eftir arfaslaka frammistöðu C's á lokasprettinum.  Margir bentu á að Celtics væru að hvíla lúin bein fyrir úrslitakeppnina en kannski var þetta bara forsmekkurinn af því sem koma skyldi.

Celtics völtuðu yfir Knicks, ef ekki er talinn leikur 2 í Boston þar sem Knicks hefðu mögulega getað stolið sigri, og sópuðu þeim út 4-0.  Knicks áttu aldrei sjens með Billups á bekknum í meiðslum og STAT nánast í göngugrind.

Bæði liðin fengu þokkalega hvíld fyrir stefnumót sitt í næstu umferð og stefndi allt í hressandi viðureign.  Úr varð hins vegar að af þessum tveim leikjum sem búnir eru hafa Heat gersamlega slátrað Celtics.  Þá á ég ekki við muninn á milli liðanna í stigum talið, heldur hvernig liðin eru að spila.  Heat eru einfaldlega hungraðri, yngri, beittari, sneggri og aldrei þessu vant... farnir að spila fantavörn.  Talandi um vörn þá virðist sem ákvörðun Danny Ainge um að senda Kendrick Perkins til Oklahoma Thunder fyrir Jeff Green og Nenad Krstic vera að springa í andlitið á honum.  Jú, mikið rétt... ég hrósaði kallinum fyrir að toga í gikkinn á sínum tíma en nú er komið í ljós að hann veðjaði allt of miklu á að Shaq yrði fær í að skila einhverjum mínútum með liðinu í úrslitakeppninni, sem ekki hefur gengið eftir.  Celtics eru orðnir soft. 

Á hinum endanum eru Lebron og Wade að spila eins og þeir áttu alltaf að gera í upphafi - saman.  Þeir ógna stanslaust til skiptis, finna hvorn annan hvar sem er á vellinum og Celtics vörnin veit aldrei í hvorn fótinn hún á að stíga því ógnin er út um allt.  Ekki skaðar heldur þegar skytturnar í liðinu er farnar að negla niður þristum eins og Jones í leik 1.  Jafnvel Chris Bosh hefur hrist af sér sykurpúðana og er að sýna gamla takta.  Ef Miami halda svona áfram, og Chicago Bulls rífa sig ekki upp á rassgatinu, sé ég ekkert lið hindra Heat á leið sinni í úrslitin. 

Eitt ber þó að hafa í huga að aðeins einn af þessum leikjum hafa verið virkilega jafnir á lokamínútunni og það var einmitt tapleikurinn gegn Philly þar sem LeBron átti færi á að klára leikinn án árangurs.  Takist Celtics að halda leikjunum jöfnum munu LeBron og Wade hafa það sem þarf til að klára dæmið?