Thursday, June 13, 2013

Jordan/LeBron reglurnar



Allir sem hafa atvinnu af því að skrifa um körfubolta hafa tjáð sig um leik 3 í úrslitunum og flestir viðrað skoðun sína á því hvernig LeBron gerði upp á bak í honum eða eitthvað á þá leið.

Eina greinin hins vegar sem að mínu mati er eitthvað vit í er grein eftir Mike Prada frá SBNation.com. Hún gerir minna af því að drulla yfir leikmanninn LeBron James og meira af því að greina hvernig liðið San Antonio Spurs fór að því að lágmarka frammistöðu hans í leiknum.

Í stuttu máli segir greining Mike, eins og reyndar flestar aðrar, að Spurs hafi gefið LeBron 1-2 metra af plássi allan leikinn, en lokað teignum með stífri hjálparvörn og alltaf gefið honum skotið af miðlungsfæri innan við þriggja stiga línuna.  

Í hvert skipti sem LeBron reyndi að keyra að körfunni tóku á móti honum að lágmarki 3 leikmenn Spurs í teignum. Þá er lítið annað eftir en að taka þessi skot sem þeir voru að gefa honum - nema hvað þau voru bara ekki að detta oní.

LeBron James er fín skytta á þessum stað. Hann hitti um 48% skota sinna á þessum stað á leiktímabilinu en um 13% skota hans komu þaðan. Þessi nýting hefur hins vegar fallið í 42% í úrslitakeppninni og skotunum fækkað niður í 9%.

LeBron James líður best þegar hann getur keyrt inn í teiginn og klárað við hringinn eða gefið boltann út til einhverra sem annað hvort keyra að körfunni eða bíða fyrir utan eftir skotinu. Þetta var ekki í boði í leik 3 og þegar skotið hans er ekki að detta er einfaldlega búið að taka manninn úr umferð.

Þegar ég las þessa grein rifjaði ég upp myndband sem er ítarleg samantekt á "Jordan reglum" Detroit Pistons í lok níunda áratugarins. Jordan reglurnar gengu út á það að hleypa Michael Jordan ekki undir neinum kringumstæðum inn í teiginn og allra síst eftir endalínunni. Gáfu honum skotið en tóku af honum leiðina að körfunni. Eini munurinn á milli aðferða Pistons og Spurs er að strákarnir hans Popovich eru umtalsvert blíðhentari en slæmu strákarnir hans Chuck Daly hér forðum.


Munurinn á því hvernig þessir tveir leikmenn hins vegar brugðust við þessu er sá að LeBron James brotnaði niður, fór að skjóta og skaut illa, Michael Jordan keyrði aftur og aftur að körfunni þrátt fyrir þéttsetinn teiginn.

Annar munur á milli þessara leikmanna er að af þeim leikjum sem mestu máli skipta vinnur Jordan langflesta sína en LeBron síður.

Til er aðferð sem heitir Leverage Index og metur vægi leikja í úrslitakeppni með líkindareikiningi. Þar vega mest leikir sem sveifla líkindum á sigrí í seríunni yfir til sigurliðsins. Þeir leikir sem valda mestri hækkun á fyrrnefndum líkindum eru mikilvægustu leikirnir.

Af tólf mikilvægustu leikjum sem Jordan og LeBron hafa spilað í úrslitum (Finals) lið Jordan unnið 11 leiki en lið LeBron unnið 6. Með öðrum orðum er Jordan með 92% vinningshlutfall í tólf mikilvægustu leikjum hans á ferlinum í úrslitum en LeBron 50%.

Jordan spilaði einnig langoftast mjög vel í þessum leikjum.

LeBron James er laaaaangsamlega hæfileikaríkasti körfuboltamaður á jarðríki. Maðurinn er brynvarinn skriðdreki inni á vellinum og enginn sem kemur honum nálægt líkamlega í heiminum. Það er einnig vitað að skilningur hans á leiknum er mjög mikill.

En er hann jafn þrjóskur, þver og svo kappsamur að það situr á mörkum andlegrar geðheilsu líkt og Michael Jordan hefur alltaf verið?

Það sem Michael Jordan skorti líkamlega bætti hann upp með andlegum og sálrænum styrk.

Þegar LeBron James tekst að byggja hann upp verður hann fyrst ósigrandi.