Tuesday, July 2, 2013

Knicks-Raptors skiptin


New York Knicks fóru illa út úr samskiptum sínum við Indiana Pacers í úrslitakeppninni í vor þar sem illa gekk að koma boltanum oní körfuna framhjá Roy Hibbert. Dolan og félagar í Knicks brugðust við þessum vanda í gær með að skipta út Marcus Camby, Quentin Richardson, Steve Novak, einum valrétt í fyrstu umferð 2016 og tveimur valréttum í annari umferð 2014 og 2017 til Toronto fyrir Andrea Bargnani.

Í fljótu bragði virðast Toronto augljós sigurvegari í þessum skiptum. Margir í Toronto fagna þessu og t.d. hafa blaðamenn í þar í borg skrifað að Raptors hafi ekki bara tekist að láta Knicks taka við illa lyktandi rusli sínu heldur einnig tekist að láta þá borga dýrum dómi fyrir það.

Það er ekkert leyndarmál að Ítalinn hafi ekki skilað því til Toronto liðsins sem ætlast hafði verið af honum. Hann hleypur frá fráköstum og gæti ekki spilað vörn til að bjarga lífi sínu. Hann getur hins vegar skotið boltanum fyrir utan teiginn og þá einna helst þriggja stiga skotinu á toppinum.

64% af skotum Bargnani komu af fimm metra færi eða utar í vetur og 370 af 425 skotum hans á sama tímabili voru stökkskot á meðan 55 voru troðslur, sniðskot eða tip-in. Hann var með aðeins 49 skottilraunir (55% nýting) við hringinn í vetur á meðan t.d. Chris Bosh var með 335 (72% nýting) og Hibbert með 404 (55% nýting).  Þannig að það er nokkuð óhætt að álykta að Knicks séu ekki að sækjast eftir nærveru hans inni í teignum.


Án efa er það markmið New York Knicks að fá miðherja sem er 7 fet, getur myndast við að setja hindrun fyrir Melo og poppað svo út í langskotið. Takist þetta verða varnarmiðherjar eins og Hibbert að yfirgefa teiginn til að hindra skotið og opna þannig leiðina að körfunni fyrir aðra leikmenn. Knicks hafa ekki mikið upp á síðkastið verið að stressa sig á varnarleik og til eru aðrir leikmenn sem geta tekið fráköst og varist eins og t.d. Tyson Chandler.

Með þessu geta Knicks róterað Chandler, Stoudamire og Bargnani sem hver hefur sinn styrkleika.

Þetta er hins vegar mikil áhætta. Bæði vegna þess að Knicks þurfa að treysta því að hann hitti almennilega auk þess sem Knicks létu frá sér ansi verðmikla valrétti í skiptunum. Frákasta- og varnarfælni Bargnani gæti einnig orðið til vandræða. Þessir þættir voru ekki beint til fyrirmyndar hjá Knicks í vetur. Í versta falli eru Knicks þá með stóran samning sem rennur út 2014 og gæti því orðið mikils virði fyrir lið sem vilja komast undir launaþakið.

Knicks geta hins vegar ekki hugsað til langs tíma því Melo þyrstir nú, meira en nokkurn tímann, í sinn fyrsta titil og hann er á hátindi ferils síns akkúrat núna.