Það á ekki að hafa farið fram hjá neinum að Carmelo Anthony er búinn að vera á leiðinni til New York Knicks síðan í haust. Melo-dramað er búið að vera nánast óþolandi sápuópera síðan þá sem endaði í vikunni á því að guttinn fékk það sem hann óskaði. Melo er í sigurvímu eftir þessi viðskipti en hvaða áhrif höfðu þau á félögin sem áttu þau?
Stjórnendur Denver Nuggets gerðu sem mest þeir gátu úr þeirri döpru stöðu sem stjörnuleikmaðurinn þeirra hafði sett þá í. Þeir gáfu ekkert eftir í öllu samningaferlinu og ýttu hinum liðunum nánast upp að sársaukamörkum í viðræðunum. Nuggets fengu Raymond Felton sem er að spila sitt besta tímabil á ferlinum og ætti að fylla skarð Billups að miklu leyti. Það er samt klárt að hann og Ty Lawson eiga eftir að berjast um byrjunarliðsstöðuna. Gallinari er þokkalegasta skytta fyrir utan en að mínu mati er mesti fengurinn í Wilson Chandler sem mikill baráttuhundur og er jafnframt að eiga sitt besta tímabil núna. Anthony Carter fer aftur til Denver og Timofey Mozgov verður backup fyrir Nene. Það sem mestu máli skiptir fyrir Nuggets hins vegar eru draft pikkin sem Knicks tæmdu gersamlega í vasann á Denver. Eitt fyrir fyrstu umferð og tvö fyrir aðra umferð.
Knicks hins vegar fengu gullkálfinn, Carmelo Anthony, sem New York borg hefur verið að bíða eftir alla tíð síðan LeBron James tjáði heimsbyggðinni á ESPN hvar hann ætlaði að spila í vetur. Knicks létu að mínu mati allt of mikið frá sér til þess. Billups er á lokasprettinum á sínum ferli og hinir tveir leikmennirnir sem komu með þeim munu ólíklega skila mjög miklu.
Melo lék sinn fyrsta leik fyrir Knicks á miðvikudaginn og var augljóslega mikil eftirvænting í loftinu í MSG. Öll augun í Garðinum voru á Melo og hann hélt sýningu. 27 stig og 10 fráköst - en hann þurfti 25 skot til þess og gaf aðeins eina stoðsendingu. STAT var sýnilega ekki mjög skemmt og endaði á bekknum í lok leiks með sex villur eftir 34 mínútur. Það sem verra er - er að þeir voru í vandræðum með ekki sterkara lið en Bucks. Menn setja einnig spurningamerki við hvernig Melo eigi eftir að passa inn í kerfið hans D'Antoni sem er mikið fyrir run-and-gun bolta. Melo hatar ekki að klappa boltanum en þetta á hins vegar allt eftir að koma í ljós. Hann þarf alla vega ekki að hafa áhyggjur af því að þurfa að spila mikla vörn þarna.
Háværar raddir voru uppi á þeim tíma sem skiptin voru að ganga yfir um að Isiah Thomas væri að fjarstýra aðgerðum Knicks-manna. Donnie Walsh, framkvæmdastjóri Knicks var tregur við að láta svona mikið fyrir Melo og var að því er virtist tilbúinn að gleyma þessu og reyna aftur í sumar þegar Melo yrði með lausan samning. James Dolan, eigandi liðsins er sagður vera í stanslausu sambandi við Thomas og þiggi reglulega ráðleggingar frá honum um rekstur liðsins. Af hverju? Ekki spyrja mig. Ferill Thomas hjá Knicks er ekki sá glæstasti en þó hafa gengið sögusagnir þess efnis að Dolan ætli þrátt fyrir allt að koma Thomas aftur til áhrifa hjá liðinu.
Þrátt fyrir að hafa aldrei haldið með Knicks liðinu verð ég að viðurkenna að maður hefur alltaf haft taugar til liðsins - fyrir þær einar sakir að liðið er staðsett í vöggu körfuboltans og saga félagsins er hlaðin goðsögnum. Því angrar það mig að átta mig ekki almennilega á því hvort þessi skipti Dolan og félaga fyrir Carmelo Anthony hafi verið sterkt marketing-múv án mikillar framtíðarsýnar eða strategísk snilld sem muni koma opinbera sig á næstu árum.
Stóra eplið er hins vegar í sigurvímu yfir þessum skiptum og það er það sem máli skiptir.