Friday, February 4, 2011

Vilja New York Knicks ekki verða gott körfuboltalið?

Brennt barn forðast eldinn er svo sannarlega ekki orðatiltæki sem á við um New York Knicks. Samkvæmt nýjustu fréttum er James Dolan í reglulegu sambandi við Isiah Thomas til að ræða málefni Knick liðsins. Þessir fundir eru sagðir vera a.m.k. 1 sinni í viku. Þetta ku vera ástæða þess að James Dolan hafi ekki ennþá framlengt samninginn við Donnie Walsh sem genral manager hjá Knicks og jafnvel talið líklegt að hann ætli að ráða Isiah aftur.


Er James Dolan einn mesti bjáni í heiminum eða þjáist hann af alvarlegu skammtímaminni? Hefur það farið framhjá honum að nánast allt sem Isiah Thomas hefur gert síðan hann hætti að spila körfubolta hefur farið illa?
Stiklum á stóru á ferli hans eftir að leikmannaferli hans lauk:
1994: Tók við sem varaforseti Toronto Raptors. Fór þar í fússi eftir að tilboði hans í liðið var hafnað.
1998: Keypti CBA deildina og keyrði hana í gjaldþrot á 2 árum. Fram til þessa má segja að CBA hafi gegnt svipuðu hlutverki og D-league þjónar í dag. Þökk sé Isiah að stærstum hluta er hún einungis ein af fjölmörgum minni deildum í Bandaríkjunum í dag.
2000: Ráðinn til NBC sem lýsandi á NBA leikjum. Entist 3 mánuði í starfi.
2000: Ráðinn sem þjálfari Indiana Pacers. Tók við góðu búi af Larry Bird en náði ekki að fylgja því eftir sem hann hafði byggt upp. Þjálfaði liðið til ársins 2003 þegar hann var rekinn eftir að Pacers liðið sem hafði endað í 3. sæti austursins tapaði fyrir liðinu í 6. sæti, Boston Celtics, í fyrstu umferð úrslitakeppninnar það árið.
2003: Ráðinn sem general manager hjá New York Knicks. Sankaði að sér hörmulegum samningum í flestum tilvikum hjá útbrunnum leikmönnum. Afrekaði það að gera New York Knicks að því liði sem borgaði yfirburðar hæstu launin í deildinni í mörg ár og á sama tíma gat liðið ekki blautan. Árið 2006 rak hann Larry Brown sem þjálfara og tók sjálfur við með hörmulegum árangri. Hrökklaðist svo úr starfi árið 2007 bókstaflega með allt niðrum sig og þar á meðal kæru fyrir kynferðislega áreitni á bakinu.


Einmitt þegar allt stefnir í að New York verði aftur lið sem keppir um NBA-titilinn fara svona orðrómar af stað. Þeir sem voru farnir að kætast yfir að Carmelo Anthony sé væntanleg að ganga til liðs við þá í sumar og svo hugsanlega Chris Paul árið 2012 ættu að reyna að ná jarðsambandi aftur. Ef Isiah verður ráðinn aftur væri álíka gáfuleg ákvörðun og þegar ríkisstjórnin ákvað að gefa Björgúlfi Guðmundssyni Landsbankann árið 2003.
P.s. þetta er í síðasta skiptið sem ég blanda pólitík inn í pistil hjá mér.