Sunday, March 6, 2011

Tvö stig eða sigur?

Þegar íslenskir fjölmiðlar segja fréttir af sigurvegara úr körfuboltaleik skrifa þeir iðulega um að sigurliðið hafi hreppt tvö stig. „Snæfell sótti tvö stig til Grindavíkur“, „Laugdælir sóttu tvö stig í greipar Þórsara“, „KFÍ engin fyrirstaða og tvö stig í hús“ o.s.frv. Að auki er það ekki óalgengt að leikmenn og þjálfarar tali um í viðtölum að næla sér í tvö stig. Ég held ég fari með rétt mál þegar ég segi að allir þjálfarar sem ég hafði á mínum meistrarflokksferli í körfubolta hafi notað frasann um að „í kvöld ætlum við að ná okkur í tvö stig!“. Það sem mér fannst svo magnaðast var þegar sumir kanarnir sem maður spilaði með voru farnir taka þennan frasa upp.


Eftir því sem ég best veit er Ísland eini staðurinn í heiminum þar sem það tíðkast að tala sigur sem tvö stig. Jafntefli er ekki til í körfubolta og því er röðun liða á stöðutöflu mjög einföld; því fleiri sem sigrarnir eru, því ofar endaru í töflunni. Það er því að mínu mati frekar tilgangslaust að margfalda fjölda sigurleikja með tveimur stigum þegar það er langeinfaldast að segja fjölda sigurleikja.

Hvernig fór svo að þessi frasi hefur fest sig í málfari íslenskra körfuboltamanna? Ég er með ákveðna kenningu sem ég hef í raun ekkert fyrir mér í, en ætla engu síður að láta hana flakka. Eins og flestir vita er þjóðaríþrótt Íslendinga handbolti (þó svo að iðkendur séu litlu fleiri en í körfubolta) og þar er stigakerfið þannig að sigur gefur tvö stig og jafntefli gefur eitt. Í gegnum árin hafa dagblöðin birt fréttir af kappleikjum í báðum þessum greinum og birt reglulega stöðutöflur úr deildunum. Einhverra hluta vegna hafa þeir haldið sömu stöðutöflum fyrir báðar greinar í stað þess að beita sáraeinfaldri forritun til að setja upp nýja stöðutöflu fyrir körfuboltann. Þetta hefur orðið til þess að stigakerfið fyrir handboltann hefur verið notað fyrir körfuna í blöðunum. Afleiðing er sú að smátt og smátt með tímanum hefur hugmyndin um sigur og tvö stig síast inn í þjóðarsálina.

Það er mér óskiljanlegt að þetta skuli vera jafn fast í málfari körfuboltamanna og rauni ber vitni. Ég hef persónulega tamið mér að tala um sigurfjölda liða líkt og gert er annars staðar. Það er að mínu mati algjör óþarfi að nota handboltamál þegar menn tala um körfubolta.