Wednesday, November 9, 2011

Skilvirkni liða í IEX deildunum

Ég er og hef lengi verið forfallinn körfubolta stat-geek og eitt af því sem gerir körfuboltann svona skemmtilegan er sú ítarlega tölfræði sem skráð er í hverjum leik.  Tölfræðingurinn Dean Oliver þróaði fyrir allnokkru síðan aðferð til að meta fjölda leikinna "sókna" (e. possessions) í hverjum leik og svo skilvirni sóknar og varnar út frá þeirri tölu. Hef ég ákveðið að heimfæra þetta hæfnismat á liðin í Iceland Express deildunum.

Skv. skilgreiningu Oliver hefst ekki ný sókn þegar skotklukka er endursett. Hugsa má að sókn sé ein ferð upp völlinn og ný sókn hefjist svo þegar hitt liðið fer til baka. Að þessu gefnu má álykta að hvort lið um sig fái u.þ.b. jafnmargar sóknir í hverjum leik.

Aðferð Oliver byggir á basic leiktölfræði hvers liðs og andstæðings, þar sem skottilraunir, fráköst, tapaðir boltar og vítaskot mynda umrætt gildi. Ég ákvað að nýta mér einfaldari útgáfuna af þessari formúlu þar sem ég hef ekki enn fengið þá flóknari til að skila eðlilegum gildum.

Það sem kannað er með þessari aðferð er skilvirkni liðanna í sókn og vörn. Hversu vel nýta liðin sóknirnar og hversu vel gengur þeim að hindra að andstæðingur nýti sínar.  Því eru gefin gildin "offensive rating" (ORgt) og "defensive rating" (DRgt) sem ég hef ekki enn fundið gott íslenskt nafn fyrir, en þau sýna stig skoruð per 100 sóknir.  Því skiptir mestu máli að hafa sem hæst offensive rating og sem lægst defensive rating. "Pace" er fjöldi sókna sem lið fær í hverjum leik og gefur vísbendingu um hversu hraðan leik liðið spilar.  Meðaltal IEX deildar karla er 82,7 sem er 2,07 per mínútu (m.v. 40 mínútna leik) og til samanburðar er meðaltal NBA deildarinnar á síðustu leiktíð 92,1 sem gefur 1,92 per mínútu (m.v. 48 mínútna leik).  Þessi gildi eru því að mínu mati mjög samanburðarhæf. "+/- MT" segir til um hversu hátt yfir eða undir meðaltali deildarinnar viðkomandi gildi er.

Kíkjum þá á töfluna eftir fimm umferðir í deildinni:


Þar má sjá að Stjarnan er skilvirkasta sóknarliðið í Iceland Express deild karla með ORgt upp á 113,39 og langt yfir meðaltali deildarinnar.  Það vekur ótvíræða athygli að sjá KR þarna í næstneðsta sæti þrátt fyrir að vera í 2. sæti deildarinnar.  Þetta er hins vegar ekki mælikvarði á "besta liðið" heldur aðeins skilvirkni þeirra.  KR spilar flestar sóknir liða í deildinni (87,7) og skorar ekki mikið í leik (86,6) sem útskýrir hvers vegna KR-ingar fá svona lágt ORgt gildi.

Ef við lítum hins vegar á vörnina þá eru Grindvíkingar langöflugasta varnarliðið skv þessum tölum, þó Keflvíkingar séu ekki langt undan.  Rökstyður að mínu mati þá tilgátu að hægt sé að fara langt í körfubolta með góðri vörn.  Grindvíkingar eru einnig yfir meðallagi í sóknarleiknum sem ásamt varnarskori liðsins útskýrir að miklu leyti árangur þess það sem af er deildinni.

Í Iceland Express deild kvenna eru það turnarnir tveir sem ráða ríkjum:


Keflavík í sókn og KR í vörn.  Kef spilar hraðan bolta og nýtir sóknirnar vel.  Hraði KR stúlkna er mjög nálægt meðaltalinu (84,06) en þær leyfa hins vegar ekki nema 68,8 stig í leik sem er ótrúlegur árangur.