Wednesday, June 13, 2012

Þáttur Nick Collison í sigri OKC Thunder í leik 1 gegn Heat

Thunder-liðsmenn mættu til leiks í fyrri hálfleik fyrsta leiks Oklahoma og Miami um úrslit NBA deildarinnar í nótt, með örlítinn vott af Finals jitters. Menn voru ekki að skjóta af öryggi og vörnin var hálfrugluð á köflum í fyrsta hluta.  Scott Brooks segir það að miklu leyti vera því um að kenna að Spoelstra ruglaði öllum match-uppum fyrir þennan leik.  T.d. byrjaði LeBron James að dekka Kendrick Perkins og þar fram eftir götunum.  Brooks sagði að það hafi tekið rúmlega fyrsta fjórðung að ná áttum vegna þessa auk þess sem Battier og Chalmers voru að negla niður skotum út um allt.

Að mínu mati fór ekkert að ganga hjá Thunder liðinu fyrr en maður að nafni Nick Collison var settur inn á í staðinn fyrir Kendrick Perkins.  Perkins er eiginlega tiltölulega gagnslaus í þessari seríu þar sem Miami hefur enga sérstaka ógn í teignum. 

Collison er einstaklega klókur körfuboltaspilari og tímasetningar hans og hreyfing án boltans eru til fyrirmyndar.  Tölfræði hans ber engan veginn vitnisburð um afrek hans í þessum leik fyrir utan kannski þau 10 fráköst (5 í sókn) sem hann reif niður á aðeins 21 mínútu.

Ef könnuð er "advanced" tölfræði leiksins er framlag hans ótvírætt.  80% TS% og eFG%, hann reif niður um 30% af öllum fráköstum sem í boði voru, og 16% sókna liðsins flæddi í gegnum hann, á meðan hann var inni á vellinum.  Önnur tölfræði frá Nerdnumbers.com sem kallast "Wins Produced" eða framlag leikmanns til árangurs liðsins, sýnir hins vegar betur en allt annað hver var mikilvægast leikmaður liðsins miðað við spilaðar mínútur.  WP-gildi Collison í leiknum var 0,20 - næst á eftir Kevin Durant sem var með 0,38.  Ef þetta gildi er hins vegar skoðað miðað við 48 leiknar mínútur er Collison með hæsta gildið eða 0,453.

Þessi sería fer hressilega af stað en ef Miami ætlar ekki að spila betri vörn en þetta (DRgt 120,2 í þessum leik) þá er ég ansi hræddur um að leikirnir í seríunni verði fáir.  Wade þarf líka að fara að ákveða sig hvort hann ætlar að taka þátt í sóknarleik liðsins eða ekki.

Kevin Durant átti hins vegar stórleik fyrir heimamenn og tókst að skrá nafn sitt í sögubækurnar við það að skora næstflest stig leikmanna í sínum fyrsta Finals leik með 36 stig.  Aðeins Allen Iverson skoraði meira eða 48 á móti Lakers 2001.