Það er ástæða fyrir því að meistaraflokkslið Keflavíkur er og hefur verið kallað "Keflavíkurhraðlestin". Liðið hefur hingað til alltaf spilað hraðan bolta og það er staðfest með því að meðal-Pace gildi liðsins er alltaf vel yfir meðaltali deildarinnar.
Á síðasta tímabili var það 84,8 (meðaltal deildarinnar 82,8) og það næsthæsta í deildinni. Á þessu tímabili er það hvorki meira né minna en 87,1 (meðaltal deildarinnar 83,1) og það hæsta í Dominos deildinni.
Ekki aðeins það að Keflavíkurhraðlestin vilji spila hratt - hún þarf að spila hratt.
Í upphafi tímabils var mikið rætt um lægð Keflavíkurliðsins. Ekkert gekk upp og met var sett í töpum í röð í upphafi tímabils. Látum liggja milli hluta að fyrstu þrír leiki Keflavíkur í deildinni hafi verið gegn þeim liðum sem spáð var hvað bestum árangri á þessu tímabili og því erfiðir leiki - lítum heldur á mögulegan áhrifavald í þessu samhengi. Leikhraði liðsins.
Keflavík spilaði alla þessa þrjá leiki um eða undir 80 í Pace. Töluvert undir meðaltali deildarinnar. Þar á eftir skelltu Keflvíkingar í rallýgírinn og þá fóru sigrarnir að rúlla inn eins og sjá má á myndinni hér að neðan. Rauða línan sýnir hraða leiks Keflavíkurliðsins í þeim leikjum sem það hefur spilað í Dominos deildinni til þessa (vinstri ás), bláa línan er meðaltal deildarinnar í Pace (vinstri ás) og gula línan sýnir uppsafnaða sigra liðsins í gegnum tímabilið (hægri ás).