Það var mikill óttablandinn spenningur og eftirvænting fyrir leik ÍR-inga gegn Skallagrími í gærkvöldi. Spenna og eftirvænting í líkingu við það sem liðið upplifði árið 1994 þegar Herbert nokkur Arnarson snéri aftur í herbúðir ÍR-inga eftir háskólanám í Bandaríkjunum.
Eftir að Jón Arnar Ingvarsson sagði starfi sínu lausu sem þjálfari ÍR í síðustu viku var ljóst að liðið var komið að ákveðnum endapunkti. Botnsæti í Dominos deildinni var staðreynd og við blasti grimm fallbarátta. Staða sem ÍR-ingar eru ekki vanir. Varast skal að skella allri skuld vegna slakrar frammistöðu liðsins á þjálfarana eina. Leikmenn voru áhugalausir í síðustu leikjum fram að þessu og mikil deyfð yfir þeim. Kannski var þetta það sem þeir þurftu. Ákveðin vatnsgusa í andlitið að vera komnir á botninn og þjálfari með margra ára reynslu sagt starfi sínu lausu vegna þess að hann getur ekki komið liðinu yfir þá andlegu deyfð sem ríkti.
Stjórn Kkd ÍR gerði dauðaleit að nýjum þjálfara og setti sér það að markmiði að ráða uppalinn ÍR-ing til verksins. Einhvern sem hafði spilað í Hellinum áður undir merkjum Íþróttafélags Reykjavíkur. Einhver sem naut þeirrar virðingar innan félagsins að hlustað yrði á það sem hann hefði að segja á æfingum og í leikjum.
Áhugi margra nafntogaðra fyrrverandi leikmanna liðsins var kannaður og var niðurstaðan vægast sagt heppileg fyrir þetta aldna stórveldi í íslenskum körfubolta. Herbert Arnarson var fenginn til að stýra liðinu það sem eftir lifði tímabils ásamt Steinari Arasyni. Herbert nýtur gríðarlegrar virðingar innan herbúða ÍR og er, ásamt Eiríki Önundarsyni, sá sem hefur náð hvað lengst af þeim sem leikið hafa með ÍR á seinni tímum. Herbert hefur það skap sem þarf til að rífa menn upp og reka þá áfram til góðra verka og þann karakter til að draga menn með sér til orrustu.
Strax og þetta var ljóst hóf að byggjast upp mikil eftirvænting meðan ÍR-inga. "Týndi sonurinn" snúinn aftur til heimahagana til að rífa liðið upp af botninum. Í áhorfendastúku Hertz hellisins mátti sjá andlit sem ekki höfðu sést þar í langan tíma. Allir eflaust að bíða eftir töfrunum sem menn upplifðu um árin 94-95.
Strax frá fyrstu mínútu leiks var ljóst að þessi tilraun Viðars Friðrikssonar og félaga í stjórn Kkd ÍR ætlaði að ganga upp. Sóknin flæddi vel og vörnin hreyfanleg og menn töluðu saman. Allt annað lið mætt til leiks en það lið sem molnaði í sundur gegn ungu liði Njarðvíkur viku áður. Stórleikur Sveinbjörns Claessen stóð upp úr að mínu mati þar sem hann ekki aðeins skoraði 18 stig (60% eFG%), hirti 9 fráköst og gaf 5 stoðsendingar heldur hélt Páli Axel í aðeins 9 stigum og 4/12 nýtingu. Sveinbjörn reif niður 25% allra varnarfrákasta á meðan hann var inni á vellinum.
Skilvirkni sóknar var mjög mikil eða 133,19 stig skoruð á hverjar 100 sóknir og skilvirkni varnar
einnig eða 97,11 skoruð stig Skallagríms á hverjar 100 sóknir. Hraði leiksins (Pace) var ekki mikill eða 72,1. ÍR-ingar töpuðu aðeins 4 boltum í öllum leiknum en fram að þessu hefur liðið verið með að meðaltali 13,6 tapaða bolta í leik.
Það eru vissulega skemmtilegir tímar framundan en áður en menn rífa upp kampavínið og fara að fagna
er rétt að vera með báðar fætur á jörðinni og átta sig á því að þetta var alger skyldusigur fyrir ÍR. Skallagrímur var lið sem ÍR einfaldlega ÁTTI að vinna á heimavelli, sér í lagi eftir að félagið hafði nýverið sent frá sér besta leikmanninn. Þetta var mjög sannfærandi sigur og skýr skilaboð til hinna liðanna að ÍR mun ekki kveðja úrvalsdeildina án þess að bíta hressilega frá sér.
Mynd: Heiða / Karfan.is