Saturday, April 6, 2013

Teitur Örlygsson: "Í körfubolta ræðst þetta oft á fráköstunum"




Sá þjálfari í Dominos deildinni sem er meira teknískur og metnaðarfyllri en Teitur Örlygsson er vandfundinn, ef hann er til. Hann og Snorri Arnaldsson aðstoðarþjálfari Stjörnunar undirbúa sína leikmenn með slíkum metnaði að annað eins er vandséð í efstu deild - og það er svo sannarlega að bera ávöxt.

Eins og svo oft áður hittir Teitur naglann á höfuðið, og nú með fráköstinn. Það sást í leik KR og Grindavíkur í DHL höllinni á fimmtudaginn þar sem KR gersamlega kjöldró meistarana í frákastabaráttunni. Sóknarfráköst eru einn mikilvægasti þáttur í sóknarleik liða og kemur ekki að óvörum að þau eru einn af fjórum þáttum í Four Factors mati á sóknarleik liða. Að því gefnu skipta varnarfráköst einnig miklu máli þar sem þeim liðum sem tekst að loka á sóknarfráköst andstæðinga sinna ætti að vera greið leið til sigurs í leikjum sínum.

Stjarnan gaf andstæðingum sínum 16 sóknarfráköst að meðaltali í deildarkeppni Dominos í vetur - langhæst allra liða. Meðaltal deildarinnar var 12,2. Í leik 1 gegn Snæfelli tapaði Stjarnan sóknarfrákasta baráttunni 11-0 en tapaði aðeins með einu stigi. Það eitt er að mínu mati næg vísbending um hvað Stjarnan þarf að gera til að vinna þetta einvígi.

Myndband frá Karfan.is