Thursday, May 23, 2013

LeBron James treður sífellt oní kokið á gagnrýnisröddum

Ef þú varst ekki undir steini síðastliðin sólarhring þá ættirðu að vita það að Miami Heat vann fyrsta leikinn gegn Indiana Pacers í framlengingu eftir æsispennandi lokasekúndur. Flestum ætti einnig að vera ljóst að LeBron James lokaði leiknum með vinstri handar sniðskoti eftir frábæra leikfléttu frá Erik Spoelstra.


Leikfléttan er eins og áður sagði óaðfinnanleg. Hún endar með þrjá leikmenn í sínum bestu stöðum fyrir spot up skoti. LeBron hins vegar sér fjórða möguleikann eftir varnarmistök Paul George sem seldi sig aðeins of ódýrt á hægri hliðinni og ætlaði eflaust að stoppa stökkskotið. LeBron les ástandið eins og opna bók á augnabliki og vindur sér á vinstri hliðina með einu drippli og beint í sniðskot með George enn að átta sig á því hvað var að gerast.

Sóknarleikurinn hjá Heat framkvæmdur fullkomlega. Varnarleikur Pacers hins vegar ekki.

David West fellur of mikið niður til að loka á sendinguna niður til Ray Allen og gefur þannig Shane Battier óhindraða sendingarlínu beint á LeBron á besta stað. Hefði hann staðið ofar hefði LeBron þurft að sækja boltann ofar George fengið mun meiri tíma til að bregðast við og LeBron eflaust þurft að reyna langskot.

Frank Vogel útskýrði fjarveru Roy Hibbert á þessum tíma í leiknum á þá leið að hann vildi ekki að Chris Bosh myndi toga hann út úr teignum með stökkskotum fyrir utan hann. Margir segja það mistök og að LeBron hefði aldrei fengið svo galopið sniðskot eins og rauninn varð ef Hibbert hefði verið á vellinum. Skemmst er frá að segja þegar Hibbert blokkaði Carmelo Anthony við hringinn í leik 6 til að stöðva mögulegan viðsnúning á leiknum Knicks í hag.

Vogel til varnar þá verður að hafa í huga að LeBron er frábær að senda boltann og virðist vera með augu allan hringinn í höfðinu. Hann hefði hæglega fundið Bosh í teignum fyrir auðveldu skoti ef Hibbert hefði sótt að honum.

Þetta er hins vegar það skemmtilega við körfuboltann. Hetjur verða skúrkar á augnabliki og öfugt. Sekúndur skipta öllu máli og má enginn sofa á verðinum.

Man einhver eftir því að fyrir akkúrat 4 árum áður gerði LeBron James þetta?

LeBron er sífellt að troða sokk ofan í gagnrýnisraddirnar sem hafa haft hvað hæst um takmarkanir hans (ef einhverjar eru). Þar á meðal er Michael Jordan, en hann sagði fyrir skemmstu að ef hann væri að dekka LeBron myndi hann hleypa honum á vinstri hliðina því hann endi öll drive að körfunni vinstra megin með stökkskoti. Vona að sokkurinn bragðist vel fyrir MJ því LeBron er að afsanna þessa kenningu í sífellu.

LeBron er einnig sífellt að sanna sig sem áreiðanlegur valkostur þegar lítið er eftir og leikurinn í járnum. Með 24 sekúndur eða minna eftir af leiknum og möguleiki á að jafna eða vinna leikinn er LeBron með 43,8% nýtingu eða 7/16. Í samanburði við meðaltal deildarinnar sem er 28,3% eru þetta ómannlegar tölur og afsanna þá fullyrðingu að maðurinn sé ekki "clutch" þegar leikurinn er í járnum. Næstur á eftir LeBron er Kobe Bryant með 5/17.