Framfarir Roy Hibbert undanfarin ár eru undraverðar. Þrátt fyrir að hafa komið úr Georgetown háskólanum sem þekktur er fyrir að framleiða stjörnumiðherja á borð við Patrick Ewing, Alonzo Mourning og Dikembe Mutombo, þá kom hann inn í NBA deildina í svo skelfilegu formi að hann gat varla hlaupið yfir völlinn og hvað þá klárað eina armbeygju.
Síðan eru liði 5 ár, mikið vatn runnið til sjávar og Hibbert orðinn einn langbesti miðherji NBA deildarinnar - staða sem er hægt og rólega að deyja út.
En hvað veldur? Jú, vinna. Það er ekki flóknara. Menn sem hafa fyrir hlutunum og vinna að því sem máli skiptir. Hibbert virðist, ef eitthvað er að marka myndbandið hér að neðan, hafa sett daglegt líf sitt í mjög fastar skorður. Ráðið næringarfræðing til að skipuleggja matarræðið og hittir styrktarþjálfara til að halda 218 cm og 130 kg skrokk hans í góðu formi.
Það er alltaf gleðilegt að sjá þegar ungir körfuboltamenn með skrokk eins og Roy Hibbert taka þjálfun utan vallar alvarlega og vinna á sínum eigin tíma statt og stöðugt að því að verða betri og betri.
Það borgar sig alltaf þegar á botninn er hvolft.