Liðin áttust við í þremur leikjum í vetur, einn leikur í Lengjubikarnum þar sem Grindavík vann öruggan sigur snemma á tímabilinu og svo sópaði hins vegar Þór deildarseríu liðanna 2-0. Staðan er því 2-1 milli þessara liða, Þór í hag, þegar kemur að úrslitakeppninni.
Hvað segir CGM aðferðin? Jú, Grindavík sigraði deildina með þónokkrum yfirburðum og vega því þungt þegar líkurnar eru reiknaðar milli þessarra liða. Líkurnar í Grindavík eru 72/28 Grindavík í vil og í Þorlákshöfn eru þær 41/59, einnig Grindavík í vil. Ég ætla að leyfa mér að vera ósammála þessum líkindum. Þar sem mér finnst leitnin hafa verið þveröfug á seinni hluta tímabilsins.
Þór var fyrsta liðið í deildinni sem lagði díselvélina í Grindavík af velli og það gerðist í Grindavík, öllum að óvörum. Eftir það fór Grindavíkur liðið að hiksta örlítið og brestir að myndast í brynjunni.
Ef við skoðum fyrri leiki þessarra liða sjáum við hvað Grindavík gjörsigrar fyrsta leikinn en í hinum tveimur fer varnar leikur Grindavíkur að gefa eftir og sóknarleikur Þórs að sækja í sig veðrið (og svo öfugt þar sem ORgt fyrir annað liðið er það sama og DRgt fyrir hitt).
Ef litið er svo á frávik þessarra gilda frá meðaltölum liðanna í deildinni í vetur þá sjáum við að Þór er mun jafnara í sínum leik og Grindavík leitar frá meðaltalinu í sóknarleiknum. Þar kemur varnarleikur Þórs til skjalanna þar sem hann efldist dag frá degi á seinni hluta deildarkeppninnar.
Fyrsti leikur liðanna var í gær og lítið fór fyrir góðum varnarleik beggja liða þar sem bæði lið voru vel yfir 110 í ORgt miðað við tölfræði leiksins.
G1 | GRI | +/- | +/- eMT | ÞÓR | +/- | +/- eMT |
Pace | 77,1 | -5,6 | -5,0 | 77,1 | -5,6 | -5,8 |
Stig | 93 | 7,1 | 3,4 | 89 | 3,1 | 4 |
Orgt | 120,6 | 16,8 | 11,5 | 115,4 | 11,6 | 12,9 |
Drgt | 115,4 | 11,6 | 19,0 | 120,6 | 16,8 | 23,6 |
Slakur leikur hjá Þór og þá sérstaklega í maður-á-mann vörninni en svæðisvörnin í seinni hálfleik náði að rétta örlítið úr kútnum fyrir þá. Grindvíkingar voru líka klaufar að nýta sér ekki tíð mistök Þórsara í sókn til að gera út um leikinn. Þessi fyrsti leikur er að miklu leyti keimlíkur fyrsta leiknum á móti KR (miðað við tölfræðina). Þór hefði allt eins getað unnið hann.
Ég ætla að geta mér til um að Þór muni vinna þessa seríu 3-1, þó ég myndi vilja sjá hana fara í 5 leiki. Benni er klókur þjálfari sem á eftir að finna einhverjar glufur í strategíu Grindavíkur og nýta sér þær. Þó er ég ekki að gera lítið um hæfileikum Helga sem er einnig frábær í sínu starfi. Grindavík er með hærra staðalfrávik (12,3) í úrslitum leikja sinna en þó mjög nálægt meðaltali deildarinnar (12,5). Þór er eins og áður hefur hér komið fram með lægsta staðalfrávik (10,0) í úrslitum leikja sinna í deildinni. Það gefur vísbendingu um að Þór sé spili stöðugri leik en Grindavík. Þór á gríðarlega sterkan heimavöll í Þorlákshöfn og hafa sýnt að þeir geta einnig unnið leiki hvar sem er á landinu. Það er engin pressa á liðinu, þar sem það á enga sögu að baki í úrslitum. Svo bara getur ekki verið langt í Grindavíkur-tjókið.
Sjáum hins vegar hvað setur. Næsti leikur á fimmtudaginn.