Það hefur eflaust farið um marga Celtics fylgjendur í lok síðasta mánaðar þegar Danny Ainge, framkvæmdastjóri Boston Celtics gekk frá leikmannaskiptasamningi við Oklahoma Thunder sem sendi Kendrick Perkins og Nate Robinson frá Boston í skiptum fyrir Jeff Green og Nenad Krstic. Hörðustu Celtics fylgjendur vönduð ekki Ainge kveðjurnar í kjölfarið og vildu meina að arkitektinn að Big 3 formúlunni sem öll stærri lið í deildinni eru nú að ljósrita, væri algerlega að drulla upp á bak.
Lengi vel var talað um að meiðsl Perkins í úrslitunum sl. sumar hafi gert gæfumuninn fyrir Boston menn og þar hafi í raun mótið klárast fyrir Celtics. Mikilvægi Perkins fyrir Boston liðið hafi þar með verið undirstrikað margfalt. Perkins var svo frá leik allan fyrri hluta þessa tímabils sem virtist ekki koma að sök því liðið spilaði eins og vel smurð vél og voru menn farnir að velta því fyrir sér hversu óstöðvandi liðið yrði þegar Perk kæmi aftur til leiks. Hvað fær þá manninn til að senda þennan máttarstólpa liðsins í burtu nú þegar félagið í þeirri mynd sem það er nú, hefur sóknina af alvöru í átt að úrslitunum þetta árið?
Fyrir það fyrsta þá er engum blöðum um það að fletta að Perkins er hrökkbrauð og stuttu eftir endurkomu hans eftir krossbandsslitin, meiddist hann á hinu hnénu auk þess sem önnur öxlin hefur eitthvað verið honum til ama. Eftir því sem fram hefur komið í fjölmiðlum reyndi Ainge að semja við Perkins um framlengingu á samningi hans í upphafi þessa árs en Perkins hafi hafnað fjögurra ára samningi upp á $30 milljónir. Haft var eftir umboðsmanni Perk að hann myndi reyna fyrir sér í free-agency næsta sumar og reyna að fá sem mest út úr því. LeBron/Cleveland fíaskóið hefur kennt mönnum að hengja sig ekki of mikið á orð leikmanna og Ainge því ákveðið að toga í gikkinn og senda Perk í burtu, því ekki hefði hann fengið neitt fyrir hann annars. En hvað fékk hann í staðinn?
205 cm háan, gríðarlega athletic small forward í Jeff Green og þokkalegan center í Nenad Krstic. Jeff Green hefur verið að koma af bekknum hjá Celtics, skoraði nú síðast 21 stig í sigri á Golden State, en Krstic hefur komið sér vel fyrir í byrjunarliðinu á meðan Shaq er meiddur. Celtics yngja upp og búa jarðveginn fyrir uppbyggingu eftir að The Big 3 leggja skóna á hilluna. Hver veit nema sóknarleikur liðsins hressist aðeins með Green á harðahlaupum og Rondo verði ekki sá eini í liðinu sem komist í Top 10 vikunnar. Krstic er annálaður bad-ass eftir stólakastið sitt í "vináttuleiknum" gegn Grikklandi í fyrra. Þessir drengir eiga þó eftir að sanna sig í úrslitakeppninni þar sem Perkins hefur reynst Celtics dýrmætastur.
Sem færir okkur einmitt að því sem hvers vegna Oklahoma Thunder lætur frá sér tvo spræka leikmenn í staðinn fyrir Kendrick Perkins. Perk er ekki sá framtakssamasti í sókninni en maðurinn getur dekkað nánast hvaða 7 fetara sem hent er á hann. Pau Gasol á eflaust erfitt með svefn nú þegar hann mun þurfa að fást við Perk mun fyrr í úrslitakeppninni. Thunder hefur ekki skort sóknarþunga en vörnin hefur verið pappírsþunn og vantað allan massa í hana. Það hangir hins vegar á heilsu Perkins það sem eftir lifir tímabils hvort Thunder hafi sett upp stálvegg í teignum hjá sér... eða keypt köttinn í sekknum. Stjórnendur Thunder eru alla vega tilbúnir að taka áhættuna því Perkins samdi nýverið við félagið um fjögurra ára $36 milljóna framlengingu á samningi sínum.
Óneitanlega hagræðing fyrir bæði lið, en of mikið af óvissuþáttum hanga á útkomunni Oklahoma megin. Celtics tóku erfiða ákvörðun sem mun eflaust gefa af sér til lengri tíma á meðan Thunder einbeita sér að núinu og að komast dýpra inn í úrslitakeppnina. Lakers/Thunder einvígið varð skyndilega í það minnsta mun áhugaverðara.